Kári útskrifaðist síðastliðið vor með BA gráðu í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands en vinnu um þessar mundir sem textíl leiðbeinandi í Brekkuskóla á Akureyri.
Um keppnina
Nýverið tók Kár þátt í alþjóðlegri fatahönnunarkeppni sem kallast DiplomaSelection, keppnin er liður í stærri hönnunar hátíð sem kallast Designblok og er haldin í Prag Tékklandi árlega. Á hátíðinni má sjá allskyns hönnun allt frá arkitektúr til vöruhönnunar auk myndlistar. Viðburðurinn sem hófst þann 8.október setti svo sannarlega sinn brag á borgina en samtals mættu um 50.000 manns á Desginblok í heildina.
Fatahönnunarkeppni er ætluð nýútskrifuðum háskólanemum og gefst þar gott tækifæri fyrir efnilega fatahönnuði að koma verkefnum sínum á framfæri. Þetta árið voru um 200 gildar umsóknir sem dómnefnd þurfti að velja úr en 15 keppendur fengu að koma til Prag og sýna útskriftarverkefnin sín á tískusýningu þann 11. október. Að kvöldi sýningardags voru úrslit kynnt og hreppti Kári Þór Barry þriðja sætið!
Um verkefnið segir Kári
Verkefnið mitt heitir Frivolous Cartoons and Exaggerated Tailoring. Eins og nafnið gefur til kynna var rannóknarefnið bæði teiknimyndir og klæðskurður, og ég kannaði hvar þessi tvö hugtök mætast. Það fyrsta sem ég uppgötvaði var mynd af kettinum Tomma frá heimsfrægu teiknimyndunum um Tomma & Jenna. Á myndinni klæðist kötturinn mjög sérstökum jakkafötum sem eru rúmgóð og appelsínugul og það sem stóð upp úr var langur frakki. Ég kannaði bakgrunn myndarinnar og komst að því að í senunni sem myndin er úr er Tommi að reyna ná athygli læðu, til þess rífur hann í gardínur sem verða á vegi hans býr skyndilega til úr þeim stílhrein jakkaföt. Eftir frekari rannsókn á jakkafötunum komst ég að því að það var verið að vitna í jakkaföt sem eiga sinn uppruna í Bandaríkjunum frá öðrum áratug tuttugustu aldar og voru sérstaklega vinsæl meðal minnihlutahópa í Los Angeles. Jakkafötin eru fræg vegna herferðar sem
yfirvöld fóru í gegn þeim en fötin þóttu nota of mikið efni á stríðstímum.
Ég held að besta dæmið sem lýsir hönnunarferlinu mínu er hvernig tásuskórnir urðu að veruleika. Til að byrja með voru þeir léleg skissa af hælaskóm, en þeir minntu mig á karaktera úr kvikmyndinni “Spy Kids” sem ég horfði á þegar ég var barn. Karakterarnir heita Thumb Thumbs og virðast vera einskonar skrímsli saman sett af fimm þumlum. En vegna þessarar skrýtnu tengingar þóttu mér tásuskórnir eiga fullkomlega við verkefnið mitt. Klæðskurður var miðillinn sem ég nýtti mér til þess að tjá rannsóknarvinnuna mína. Reyndari maður en ég sagði einu sinni að í klæðskurði þá sé lykillinn góð efni og þolinmæði. Gæða efni gefur skraddaranum meira til að vinna með þegar kemur að nákvæmni, liturinn og áferð efnisins gefa möguleika til að tjá mismunandi tilfinningar og að lokum það hvernig efnið liggur býður klæðskeranum upp á ólíkar leiðir til þess að ná fram ákveðnum skuggamyndum.
Í heild sinni snýst verkefnið mitt um að rannsaka uppruna og táknheim teiknimynda og hvernig hægt er að yfirfæra þessa einstöku fagurfræði á áhrifaríkan hátt inn í heim tískunnar með því að nýta klæðskurð sem verkfæri.



