Hlynur Hallsson og Númi Kristínarson opna tvær einkasýningar í Mjólkurbúðinni í Listagilinu, Kaupvangsstræti 12 á Akureyri, miðvikudaginn 10. september kl. 17.
Sýning Hlyns ber titilinn ELSKA ÞIG / LIEBE DICH / LOVE YOU og verkin eru öll ný sprey/textaverk.
Sýning Núma er á vesturvegg Mjólkurbúðarinnar og ber titilinn KILLING YOURSELF TO LIVE og þar gefur að líta málverk sem unnin eru nýlega.
Númi stundar nám á öðru ári Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri og hann hefur sýnt verkin sín á Amtsbókasafninu á Akureyri, á LYST í Lystigarðinum og í VMA. Hér má sjá nokkur verk Núma á instagramsíðu hans: www.instagram.com/by.numik
Þetta er 75 einkasýning Hlyns sem hefur verið starfandi myndlistarmaður í rúmlega 30 ár. Síðustu einkasýningar hans eru „Herbergi með útsýni” í Gallery Port í Reykjavík 2024, „Rendur og stjörnur” í Gallerí Listamenn í Reykjavík 2023 og „abandoned stories” í Kasseler Kunstverein, í Fridericianum í Kassel ásamt Jenny Michel, 2021.
Hlynur hefur tekið þátt í yfir 120 samsýningum á ferlinum og hann á verk á sýningunni „Mitt rými” sem stendur yfir til 14. september í Listasafninu á Akureyri og á samsýningu Myndlistarfélagsins „Já já” sem opnar þann 13. september í Gallerí Havnará í Þórshöfn í Færeyjum. Nánar hér: www.hlynur.is
Verk eftir Hlyn má finna í safneignum Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Listasafnsins á Akureyri og Nýlistasafnsins auk einkasafna í Evrópu.
Hlynur var safnstjóri Listasafnsins á Akureyri 2014-2024 og hefur einnig kennt við Myndlistarskólann á Akureyri, Listaháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og unnið sem sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og sett upp sýningar hjá Nýlistasafninu, Kuckei+Kuckei í Berlín, Kunstraum Wohnraum og Villa Minimo í Hannover, Kunstverein Hannover og hjá Chinati Foundation í Marfa, Texas. Hann var einn þeirra listamanna sem stofnuðu Verksmiðjuna á Hjalteyri 2008. Hlynur gaf út tímaritið Blatt Blað 1994-2016.
Sýningar Hlyns og Núma í Mjólkurbúðinni standa yfir til sunnudagsins 21. september 2025 og er opið laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og samkvæmt samkomulagi.


