Endurkoma

Listhópurinn Höfuðverk
Frá
24/01/2026
Til
01/02/2026

ENDURKOMA
opnun í sal Myndlistafélagsins laugardaginn
24. janúar kl. 15:00

Listhópurinn Höfuðverk saman stendur af sjö listakonum sem voru samferða í gegnum myndlistaskóla og hafa þær haldið saman nokkrar samsýninga gegnum árin.

Endurkoma er heiti sýningarinnar og hefur vísun í margt sem tengist þeim.
Þær eru ólíkar og allar með sterka sýn í listsköpun sinni. Hvort það sé með penslinum sem leikur á striga eða beittri nál sem stungið er fimlega í textíl.

Að þessu sinni sýna saman

Áslaug er Þingeyingur en bjó um tíma á Akureyri sem leiddi til þess að hún fór í myndlistarskólann. Hún útskrifaðist 2009 með þessum frábæru konum sem stofnuðu hópinn Höfuðverk. Hún hefur haldið tvær einkasýningar, sýnt með systur sinni Rósu Sigrúnu myndlistarkonu og samsýningar með hópnum sínum. Frá útskrift hefur hún unnið með þrívíddar verk úr leir, plasti og járni. Undanfarin ár hefur hún unnið með myndir sem hún sér í kaffibollum og kallar “ lesið í bollann” það eru blýantsteikningar, tréþrykk og málað með akryl.
Á sýningunni eru kaffibollaskissur og mynd þar hún og 6 ára dóttursonur hennar ristuðu á blað og hún útfærði í málverk.

Ásta Bára er búsett á Akureyri og hefur unnið í myndlist frá því hún útskrifaðist af Fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2009. Hún hefur haldið átta einkasýningar og tekið þátt i fjölda samsýninga. Viðfangsefni málverkana er hið daglega líf fólks og athafnir þess. En þessar athafnir fólks eru óendanleg uppspretta myndefnis sem gaman er að leika sér með, s.s. með því að teygja og toga líkama á málverkunum eins og hentar hverri mynd. Litagleði og kímni einkenna málverkin sem eru máluð til að njóta þess að fara með ímyndunaraflið í ferðalag og gleðjast.

Hrönn er Akureyringur og eftir viðkomu á listnámsbraut VMA fór hún í myndlistaskóla Akureyrar og útskrifaðist 2010. Síðan þá hefur hún verið að mála og hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum.

Ragney er Blönduósingur sem að flutti til Akureyrar fyrir rúmlega 20 árum meðal annars til að fara í myndlistaskólann þaðan sem að hún útskrifaðist 2009. Þar kynntist hún líka þessum flottu og hugmyndaríku konum sem að mynda Lysthópinn Höfuðverk. Hún hefur haldið eina einkasýningu og tekið þátt í samsýningum, bæði með hópnum Höfuðverk og á vegum Myndlistarfélagsins. Ýmisskonar þrívídd, meðal annars úr ýmsum endurunnum efnum heilla hana mest þar sem að lesblinda gegnir stóru hlutverki við sköpun verkanna. Einnig hefur hún unnið með málverkið.

Allir eru hjartanlega velkominn