45 félagar í Myndlistarfélaginu sýna í Færeyjum

Opnunardagurinn var fallegur, margmenni, stemning og gleði við opnun. Stjórn Myndlistarfélagsins vonar að þetta verði fyrsta skrefið í samstarfi myndlistarmanna þessara tveggja landa. „Við erum afar þakklát fyrir frábærar móttökur“. Sýningin er opin daglega frá 16.00-18.00 til og með sunnudagsins 21. september.

Sýning þessi sem fyrst var sett upp í Mjólkurbúðinni á Akureyri á Akureyrarvöku og svo í Gallarí Havnará í Þórshöfn í Færeyjum, er fyrsta skrefið í samstarfi við systursamtök okkar í Færeyjum, Føroysk Myndlistafólk. Okkur barst til eyrna að færeyingar kölluðu íslendinga „Jáara“ og þannig varð titill sýningainnar til.
   
Verkin eru fjölbreytt, hver og einn af 45 þátttakendum syngur með sínu nefi. Við fögnum fjölbreytileikanum, hann er okkar styrkur. Sýningin endurspeglar þá miklu grósku sem nú á sér stað í myndlist á Akureyri og nærsveitum. Fimm félagar í  Føroysk Myndlistafólk opna síðan sýningu í Mjólkurbúðinni á Akureyrarvöku á næsta ári. Við væntum þess að þetta samstarf muni vaxa og dafna.

Myndlistarfélagið á Akureyri er hagsmunasamtök myndlistarmanna á Akureyri og er þeirra málsvari. Félagið vinnur að því að efla umræðu um myndlist, auka þekkingu og fræðslu, koma á samvinnu við listamenn, hér á landi og erlendis, ásamt því að standa fyrir sýningum á verkum félaga Myndlistarfélagsins.  
Myndlistarfélagið sér um rekstur Mjólkurbúðarinnar, sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri og á þessu ári verða 25 sýningar og viðburðir í salnum. Samsýningar félagsmanna í Mjólkurbúðinni eru á Akureyrarvöku og fyrir jólin. Félagið er einnig í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar og næsta sýning félagsins í Hofi er komin á dagskrá sumarið 2026.  

Við þökkum eftirtöldum fyrir veittan stuðning:
SSNE, Myndlistasjóður, Smyril Line, Stefna, Rafeyri, Akureyrarbær, Norðurorka, Bilaleiga Akureyrar, Landsbankinn, Gallerí Havnará og  Føroysk Myndlistafólk.